Laugardagur, apríl 18, 2015
Text Size

Undirbúningur atkvæðagreiðslu

Við fylgjum sanngjörnum kröfum eftir með því að leggja niður störf

GREIDDU ATKVÆÐI – HAFÐU ÁHRIF!

Starfsgreinasambandið (SGS) hefur tilkynnt um víðtækar verkfallsaðgerðir sem bresta munu á í lok þessa mánaðar og í maímánuði, hafi ekki náðst samningar fyrir þann tíma. Um er að ræða harðari og umfangsmeiri aðgerðir en áður höfðu verið kynntar en í stað staðbundinna vinnustöðvana þá hefjast allsherjarverkföll. Aðgerðirnar ná til yfir 10 þúsund félagsmanna aðildarfélaga SGS og munu hafa mikil áhrif á fjölda vinnustaða um land allt. Atkvæðagreiðsla vegna verkfallsboðunarinnar hefst mánudaginn 13. apríl kl. 8.00 og henni lýkur viku síðar á miðnætti 20. apríl.

Ástæðan fyrir þessu fyrirhuguðu hertu verkfallsaðgerðum Starfsgreinasambandsins eru m.a. tilraunir Samtaka atvinnulífsins til að tefja fyrir atkvæðagreiðslum launþegasamtaka og mikill baráttuvilji meðal félagsmanna aðildarfélaga Sambandsins. Upphaflega var áætlað að hefja vinnustöðvanir um miðjan þennan mánuð en vegna úrskurðar Félagsdóms varð að hefja atkvæðagreiðslu um aðgerðirnar upp á nýtt.

Meginkrafan af hálfu SGS hefur verið hækkun grunnlauna sem liggja nú í rúmum 200 þúsund krónum fyrir fulla vinnu og að lágmarkslaun fari þannig upp í 300 þúsund krónur innan þriggja ára. Krafan er sett fram meðal annars í ljósi mikils hagnaðar fyrirtækja og hækkana til hinna hæst launuðu í þjóðfélaginu.

Björn Snæbjörnsson, formaður SGS: „Fólk er bara orðið reitt. Það er ekki hægt að lifa sómasamlegu lífi á þessum launum. Þegar við bætast hækkanir á matarskatti og hærri húsnæðiskostnaður þá er ljóst að staða verkafólks er orðin óviðunandi og það nær einfaldlega ekki að framfleyta fjölskyldum sínum. Félagsmenn okkar eru harðduglegt fólk sem gengur óþreytt til sinna verka gegn því að fá sanngjörn laun. Almenningur er á okkar bandi um að þetta séu ekki boðleg laun fyrir fulla vinnu – rúmar tvö hundruð þúsund krónur á mánuði. Miðað við forsendur þær sem atvinnurekendur hafa sett fram þá er verið að bjóða þessu fólki upp á nokkra þúsund kalla í hækkun. Það sættir sig enginn við í okkar hópi og við erum því nauðbeygð að grípa til þessara aðgerða. Við vonum auðvitað í lengstu lög að það megi forða verkföllum. Þau eiga alltaf að vera neyðarúrræði. Það er hins vegar enginn bilbugur á okkar fólki og við erum búin undir að þetta geti orðið löng orrusta.“

Skipulag verkfallsaðgerðanna:

30. apríl 2015 – Allsherjar vinnustöðvun frá klukkan 12:00 á hádegi til miðnættis sama dag.

6. maí 2015 – Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 6. maí).

7. maí 2015 – Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 7. maí).

19. maí 2015 – Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 19. maí).

20. maí 2015 – Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 20. maí).

26. maí 2015 – Ótímabundin vinnustöðvun hefst á miðnætti aðfaranótt 26. maí 2015.

Hér er hægt að lesa nánar um atkvæðagreiðsluna: Verkfall - Strike - Strajk

Tekið af heimasíðu SGS

Undirbúningur atkvæðagreiðslu


Undirbúningur að því að endurtaka atkvæðagreiðslu um verkfall er nú í fullum gangi. Fyrri atkvæðagreiðsla okkar var dæmd ólögmæt og því er hún endurtekin núna og greint á milli aðildarfélaga innan SGS og þeirra samninga sem kosið er um. Aldrei hefur verið dæmt í svona máli áður en ljóst er að SA ætlar að beita lagaklækjum frekar en að setjast að samningaborðinu. Atkvæðagreiðslan hefst á mánudaginn 13. apríl kl. 8 og verður í rafrænu formi. Félagsmenn fá sent lykilorð í pósti á mánudag eða þriðjudag.

Tekið af heimasíðu SGS

Yfirlýsing SGS vegna úrskurðar félagsdóms

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands (SGS) lýsir miklum vonbrigðum með nýfallinn dóm félagsdóms í máli Rafiðnaðarsambandsins vegna tæknimanna hjá RÚV en Samtök atvinnulífsins (SA) höfðu efast um lögmæti verkfallsaðgerða tæknimannanna. Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að óheimilt hafi verið að telja atkvæði vegna verkfallsboðunar margra stéttarfélaga í einu lagi, jafnvel þó að um sameiginlegar aðgerðir sé að ræða.

Í ljósi þess að yfirstandandi atkvæðagreiðsla Starfsgreinasambandsins er einnig vegna sameiginlegra aðgerða margra stéttarfélaga hefur samninganefnd SGS ákveðið að afturkalla atkvæðagreiðsluna. Verður hún í kjölfarið endurtekin hjá hverju félagi fyrir sig. Þetta gæti þýtt að fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir á vegum SGS frestist um tvær til þrjár vikur. Uppfærð áætlun um aðgerðir verður kynnt fljótlega og í kjölfarið munu öll félögin 16 sem aðild eiga að samninganefnd SGS boða til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sinna.

Meginkrafa SGS hefur verið að lágmarkslaun verði hækkuð í 300 þúsund krónur innan þriggja ára og stefnir sambandið ótrautt á verkfall náist ekki samkomulag áður um það sem SGS álítur mannsæmandi kjör. Verkfallsaðgerðirnar munu taka til ríflega 10.000 manns sem starfa á matvælasviði, svo sem í fiskvinnslu, kjötvinnslu og sláturhúsum, í þjónustugreinum, svo sem ferðaþjónustu og ræstingum og í byggingarstarfsemi, mannvirkjagerð, iðnaði og flutningsgreinum.

Tekið af heimasíðu SGS

Atkvæðagreiðsla í fullum gangi

Þessa dagana stendur yfir atkvæðakvæðagreiðsla vegna verkfallsboðunar 16 félaga innan Starfsgreinasambandsins, en í henni munu ríflega 10.000 manns, þ.e. verkafólk utan höfuðborgarsvæðisins, taka afstöðu til hvort boðað verði til viðamikilla verkfallsaðgerða frá og með 10. apríl næstkomandi til að þrýsta á atvinnurekendur að mæta sanngjörnum launakröfum sambandsins. Það er því ekki ljóst ennþá hvort til verkfalls kemur, en það bendir aftur á móti margt til þess og sá mikli stuðningur sem SGS og aðildarfélög þess hafa fundið fyrir að undanförnu styðja það. Fjöldi fólks hefur haft samband símleiðis eða í tölvupósti til að lýsa yfir stuðningi sínum og hvatningu og  jafnframt hefur fjöldi atvinnurekanda haft samband og óskað eftir að gera samninga við sitt starfsfólk um 300.000 króna lágmarkslaun. Slíkum óskum er beint til Samtaka atvinnulífsins og eðlilegt að fyrirtæki sem eru í þeim samtökum þrýsti á um að allsherjarsamningar séu endurnýjaðir.

Félögin 16 hafa að undanförnu haldið fjölda fjölmenna félags- og samstöðufundi á sínum félagssvæðum til að fara yfir stöðu mála og stappa stálinu í sitt fólk. Til að mynda hélt Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur fjölmennan samstöðufund í gærkvöldi þar sem yfir helmingur félagsmanna mætti! Þá mættu á annað hundrað félagsmenn á fundi á tvo félagsfundi sem Eining-Iðja hélt í Hrísey og á Dalvík í fyrradag. Sérstaklega var mætingin góð á Dalvík og muna elstu menn ekki eftir slíkri mætingu á félagsfund í bænum.

SGS vill nota tækifærið og þakka þann góða meðbyr og hvatningu sem sambandið og félög þess hafa fengið. Sameinuð berjumst við og segjum  við verkfalli!

Tekið af heimasíðu SGS

Atkvæðagreiðsla um verkföll hafin!!

í morgun hófst rafræn atkvæðagreiðsla 16 aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins um heimild til verkfallsboðunar vegna félagsmanna sem starfa eftir kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins. Rúmlega 10.000 manns eru á kjörskrá og fá þeir í dag eða á næstu dögum send kjörgögn vegna atkvæðagreiðslunnar. Lykilorðið sem fylgir með kjörgögnum veitir aðgang að kosningunni. Hver og einn ber ábyrgð á sínu atkvæði. Atkvæðin eru ekki persónurekjanleg þannig að það er ekki hægt að óska eftir nýju lykilorði, ef það kynni að glatast. Þar af leiðandi er mikilvægt að passa vel upp á lykilorðið. Fólk er hvatt til að skoða gögnin vel og vandlega og ef einhverjar spurningar vakna að hafa sambandi við skrifstofu félagsins.

Gert er ráð fyrir að niðurstaðan liggi fyrir 31. Mars, rúmri viku áður en aðgerðirnar eiga að hefjast.

Hér getur þú greitt atkvæði í kosningunni

Nánari upplýsingar eru að finna hér á heimasíðu SGS 


Viðræðum slitið - aðgerðir undirbúnar

Samninganefnd starfsgreinasambandsins lýsti í dag yfir árangurslausum viðræðum við Samtök atvinnulífsins en reynt hefur verið að ná endurnýjun kjarasamninga í nokkra mánuði án árangurs. Kröfur SGS eru skýrar: Að lægstu laun verði komin upp í 300 þúsund krónur innan þriggja ára svo launafólk hafi möguleika til að lifa af dagvinnulaunum. Það eru mikil vonbrigði að Samtök atvinnulífsins voru ekki tilbúin til að koma til móts við þessar kröfur. Starfsgreinasambandið er því nauðbeygt til að hefja undirbúning aðgerða og leita heimildar hjá sínum félögum til verkfallsboðunar.

Þau átök á vinnumarkaði sem þetta hefur í för með sér er afleiðing annars vegar skilningsleysis Samtaka atvinnulífsins á þeim launum sem fólk þarf til að lifa af og hins vegar stjórnvalda sem brugðust algerlega í þeirri tilraun sem gerð var fyrir rúmu ári síðan með hóflegar launahækkanir og aukinn kaupmátt. Til þess að sú tilraun gengi upp þurftu allir að taka þátt en svo er einfaldlega ekki.

Samstaða innan samninganefndar Starfsgreinasambandsins er fullkomin og viðræðurslit voru samþykkt einróma af öllum fulltrúum þeirra 16 aðildarfélaga sem SGS fer með samningsumboð fyrir en þau eru: AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélagið Samstaða, Stéttarfélag Vesturlands, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðsfélag Þórshafnar.

Fleiri greinar...

<< Fyrsta < Fyrri 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 Næsta > Síðasta >>