Fimmtudagur, apríl 02, 2015
Text Size

Yfirlýsing SGS vegna úrskurðar félagsdóms

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands (SGS) lýsir miklum vonbrigðum með nýfallinn dóm félagsdóms í máli Rafiðnaðarsambandsins vegna tæknimanna hjá RÚV en Samtök atvinnulífsins (SA) höfðu efast um lögmæti verkfallsaðgerða tæknimannanna. Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að óheimilt hafi verið að telja atkvæði vegna verkfallsboðunar margra stéttarfélaga í einu lagi, jafnvel þó að um sameiginlegar aðgerðir sé að ræða.

Í ljósi þess að yfirstandandi atkvæðagreiðsla Starfsgreinasambandsins er einnig vegna sameiginlegra aðgerða margra stéttarfélaga hefur samninganefnd SGS ákveðið að afturkalla atkvæðagreiðsluna. Verður hún í kjölfarið endurtekin hjá hverju félagi fyrir sig. Þetta gæti þýtt að fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir á vegum SGS frestist um tvær til þrjár vikur. Uppfærð áætlun um aðgerðir verður kynnt fljótlega og í kjölfarið munu öll félögin 16 sem aðild eiga að samninganefnd SGS boða til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sinna.

Meginkrafa SGS hefur verið að lágmarkslaun verði hækkuð í 300 þúsund krónur innan þriggja ára og stefnir sambandið ótrautt á verkfall náist ekki samkomulag áður um það sem SGS álítur mannsæmandi kjör. Verkfallsaðgerðirnar munu taka til ríflega 10.000 manns sem starfa á matvælasviði, svo sem í fiskvinnslu, kjötvinnslu og sláturhúsum, í þjónustugreinum, svo sem ferðaþjónustu og ræstingum og í byggingarstarfsemi, mannvirkjagerð, iðnaði og flutningsgreinum.

Tekið af heimasíðu SGS

Atkvæðagreiðsla í fullum gangi

Þessa dagana stendur yfir atkvæðakvæðagreiðsla vegna verkfallsboðunar 16 félaga innan Starfsgreinasambandsins, en í henni munu ríflega 10.000 manns, þ.e. verkafólk utan höfuðborgarsvæðisins, taka afstöðu til hvort boðað verði til viðamikilla verkfallsaðgerða frá og með 10. apríl næstkomandi til að þrýsta á atvinnurekendur að mæta sanngjörnum launakröfum sambandsins. Það er því ekki ljóst ennþá hvort til verkfalls kemur, en það bendir aftur á móti margt til þess og sá mikli stuðningur sem SGS og aðildarfélög þess hafa fundið fyrir að undanförnu styðja það. Fjöldi fólks hefur haft samband símleiðis eða í tölvupósti til að lýsa yfir stuðningi sínum og hvatningu og  jafnframt hefur fjöldi atvinnurekanda haft samband og óskað eftir að gera samninga við sitt starfsfólk um 300.000 króna lágmarkslaun. Slíkum óskum er beint til Samtaka atvinnulífsins og eðlilegt að fyrirtæki sem eru í þeim samtökum þrýsti á um að allsherjarsamningar séu endurnýjaðir.

Félögin 16 hafa að undanförnu haldið fjölda fjölmenna félags- og samstöðufundi á sínum félagssvæðum til að fara yfir stöðu mála og stappa stálinu í sitt fólk. Til að mynda hélt Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur fjölmennan samstöðufund í gærkvöldi þar sem yfir helmingur félagsmanna mætti! Þá mættu á annað hundrað félagsmenn á fundi á tvo félagsfundi sem Eining-Iðja hélt í Hrísey og á Dalvík í fyrradag. Sérstaklega var mætingin góð á Dalvík og muna elstu menn ekki eftir slíkri mætingu á félagsfund í bænum.

SGS vill nota tækifærið og þakka þann góða meðbyr og hvatningu sem sambandið og félög þess hafa fengið. Sameinuð berjumst við og segjum  við verkfalli!

Tekið af heimasíðu SGS

Atkvæðagreiðsla um verkföll hafin!!

í morgun hófst rafræn atkvæðagreiðsla 16 aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins um heimild til verkfallsboðunar vegna félagsmanna sem starfa eftir kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins. Rúmlega 10.000 manns eru á kjörskrá og fá þeir í dag eða á næstu dögum send kjörgögn vegna atkvæðagreiðslunnar. Lykilorðið sem fylgir með kjörgögnum veitir aðgang að kosningunni. Hver og einn ber ábyrgð á sínu atkvæði. Atkvæðin eru ekki persónurekjanleg þannig að það er ekki hægt að óska eftir nýju lykilorði, ef það kynni að glatast. Þar af leiðandi er mikilvægt að passa vel upp á lykilorðið. Fólk er hvatt til að skoða gögnin vel og vandlega og ef einhverjar spurningar vakna að hafa sambandi við skrifstofu félagsins.

Gert er ráð fyrir að niðurstaðan liggi fyrir 31. Mars, rúmri viku áður en aðgerðirnar eiga að hefjast.

Hér getur þú greitt atkvæði í kosningunni

Nánari upplýsingar eru að finna hér á heimasíðu SGS 


Viðræðum slitið - aðgerðir undirbúnar

Samninganefnd starfsgreinasambandsins lýsti í dag yfir árangurslausum viðræðum við Samtök atvinnulífsins en reynt hefur verið að ná endurnýjun kjarasamninga í nokkra mánuði án árangurs. Kröfur SGS eru skýrar: Að lægstu laun verði komin upp í 300 þúsund krónur innan þriggja ára svo launafólk hafi möguleika til að lifa af dagvinnulaunum. Það eru mikil vonbrigði að Samtök atvinnulífsins voru ekki tilbúin til að koma til móts við þessar kröfur. Starfsgreinasambandið er því nauðbeygt til að hefja undirbúning aðgerða og leita heimildar hjá sínum félögum til verkfallsboðunar.

Þau átök á vinnumarkaði sem þetta hefur í för með sér er afleiðing annars vegar skilningsleysis Samtaka atvinnulífsins á þeim launum sem fólk þarf til að lifa af og hins vegar stjórnvalda sem brugðust algerlega í þeirri tilraun sem gerð var fyrir rúmu ári síðan með hóflegar launahækkanir og aukinn kaupmátt. Til þess að sú tilraun gengi upp þurftu allir að taka þátt en svo er einfaldlega ekki.

Samstaða innan samninganefndar Starfsgreinasambandsins er fullkomin og viðræðurslit voru samþykkt einróma af öllum fulltrúum þeirra 16 aðildarfélaga sem SGS fer með samningsumboð fyrir en þau eru: AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélagið Samstaða, Stéttarfélag Vesturlands, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðsfélag Þórshafnar.

Laun á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin

Mikið hefur verið fjallað um laun og launakjör á Íslandi í samanburði við kjör félaga okkar á hinum Norðurlöndunum, en lítið hefur verið um haldbærar upplýsingar um hver þessi munur er. ASÍ hefur reglulega gert samanburðarkannanir á lífskjörum hér og á Norðurlöndunum og þá horft l bæði til tekna, skatta sem og ýmissa tilfærslna eins og barna- og húsnæðisbóta. Undanfarin ár hafa hagstofur innan ESB og EES landanna unnið að samræmingu hagskýrslugerðar um laun og tekjur einstakra starfsstétta. Því er orðið mun auðveldara að bera saman laun eftir starfsstéttum en áður var. Í þessari úttekt er litið til reglulegra dagvinnulauna á almennum vinnumarkaði á Norðurlöndunum árið 2013.

Á mynd 1 má sjá samanteknar niðurstöður um meðaltal dagvinnulauna á Norðurlöndunum árið 2013 m.v. meðalgengi viðkomandi gjaldmiðla skv. Seðlabanka Íslands á því ári. Á myndinni má sjá dagvinnulaunin án tillits til verðlags og skatta (grænu súlurnar), að teknu tilliti til verðlags (rauðu súlurnar) og að teknu tilliti til bæði verðlags og skatta (bláu súlurnar).

Eins og sjá má eru laun á hinum Norðurlöndunum talsvert hærri en hér á landi eða ríflega 60% hærri að meðaltali. Hæst eru dagvinnulaunin í Danmörku og Noregi en munurinn er minni gagnvart Svíþjóð og Finnlandi.


Að baki þessum mikla mun á launum er einnig talsverður mun á verðlagi þannig að launin endast ekki endilega jafnvel í öllum löndunum, þ.e. kaupmáttur þeirra er mis mikill. Til að leiðrétta fyrir mismunandi verðlagi milli landa má nota svokallaða kaupmáttarjafnvægisstuðla, þar sem verðlag sambærilegra neysluvara er borið saman til að gera launasamanburðinn raunhæfari (rauðu súlurnar). 

 

Tekið af síðu ASÍ

Hér má sjá ítarlegri fréttaskýringu

Lægstu laun verði 300 þús. kr. innan þriggja ára.

Kjarakröfur Starfsgreinasambandsins birtar atvinnurekendum

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands (SGS) afhenti Samtökum atvinnulífsins í dag kröfugerð sína vegna komandi kjarasamninga.

Kröfurnar mótuðust á fundum í verkalýðsfélögum og á vinnustöðum um land allt og með hliðsjón af niðurstöðu viðhorfskannana. Þær urðu þannig til í víðtæku, lýðræðislegu ferli í verkalýðshreyfingunni þar sem öllum félagsmönnum gafst kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hafa áhrif.

Meginkröfur Starfsgreinasambandsins eru þær að

  • miða krónutöluhækkanir á laun við að lægsti taxti verði 300 þúsund krónur á mánuði innan þriggja ára og sérstaklega verði horft til gjaldeyrisskapandi atvinnugreina við launahækkanir.
  • endurskoða launatöflur þannig að starfsreynsla og menntun séu metin til hærri launa.
  • desember- og orlofsuppbætur hækki.
  • vaktaálag verði endurskoðað og samræmt kjarasamningum á opinberum vinnumarkaði.
  • lágmarksbónus verði tryggður í fiskvinnslu.
  • skilgreind verði ný starfsheiti í launatöflu.

Gerðir hafa verið kjarasamningar við einstaka starfsstéttir undanfarnar vikur og mánuði, sem hljóta almennt að vísa launafólki veginn. Samhljómur er meðal aðildarfélaga SGS um að sú launastefna, sem hefur mótast í samfélaginu, endurspeglist í kjarasamningum SGS við Samtök atvinnulífsins.

Grundvallaratriði er að fólk lifi af dagvinnulaunum í stað þess að ganga sér til húðar í yfirvinnu, aukavinnu og akkorði til að framfleyta sér og sínum.

Langur vinnudagur og mikið álag dregur úr framleiðni og eykur samfélagslegan kostnað. Þá á launafólk að njóta þess í launum þegar það öðlast meiri færni í starfi með reynslu og menntun.


Tekið af síðu SGS

Samninganefnd Starfsgreinasamband Íslands (SGS) hefur samningsumboð 16 verkalýðsfélaga innan SGS.  Flóafélögin 3 fara sjálf með sitt umboð. SGS er stærsta landssambandið innan Alþýðusambands Íslands og hefur um 50.000 félagsmenn innan sinna vébanda í 19 félögum. SGS var stofnað 13. október 2000 við samruna Verkamannasambands Íslands, Þjónustusambands Íslands, vegna starfsfólks í veitinga- og gistihúsum, og Landssambands iðnverkafólks. 

Fleiri greinar...

<< Fyrsta < Fyrri 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 Næsta > Síðasta >>