Laugardagur, febrúar 28, 2015
Text Size

Laun á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin

Mikið hefur verið fjallað um laun og launakjör á Íslandi í samanburði við kjör félaga okkar á hinum Norðurlöndunum, en lítið hefur verið um haldbærar upplýsingar um hver þessi munur er. ASÍ hefur reglulega gert samanburðarkannanir á lífskjörum hér og á Norðurlöndunum og þá horft l bæði til tekna, skatta sem og ýmissa tilfærslna eins og barna- og húsnæðisbóta. Undanfarin ár hafa hagstofur innan ESB og EES landanna unnið að samræmingu hagskýrslugerðar um laun og tekjur einstakra starfsstétta. Því er orðið mun auðveldara að bera saman laun eftir starfsstéttum en áður var. Í þessari úttekt er litið til reglulegra dagvinnulauna á almennum vinnumarkaði á Norðurlöndunum árið 2013.

Á mynd 1 má sjá samanteknar niðurstöður um meðaltal dagvinnulauna á Norðurlöndunum árið 2013 m.v. meðalgengi viðkomandi gjaldmiðla skv. Seðlabanka Íslands á því ári. Á myndinni má sjá dagvinnulaunin án tillits til verðlags og skatta (grænu súlurnar), að teknu tilliti til verðlags (rauðu súlurnar) og að teknu tilliti til bæði verðlags og skatta (bláu súlurnar).

Eins og sjá má eru laun á hinum Norðurlöndunum talsvert hærri en hér á landi eða ríflega 60% hærri að meðaltali. Hæst eru dagvinnulaunin í Danmörku og Noregi en munurinn er minni gagnvart Svíþjóð og Finnlandi.


Að baki þessum mikla mun á launum er einnig talsverður mun á verðlagi þannig að launin endast ekki endilega jafnvel í öllum löndunum, þ.e. kaupmáttur þeirra er mis mikill. Til að leiðrétta fyrir mismunandi verðlagi milli landa má nota svokallaða kaupmáttarjafnvægisstuðla, þar sem verðlag sambærilegra neysluvara er borið saman til að gera launasamanburðinn raunhæfari (rauðu súlurnar). 

 

Tekið af síðu ASÍ

Hér má sjá ítarlegri fréttaskýringu

Lægstu laun verði 300 þús. kr. innan þriggja ára.

Kjarakröfur Starfsgreinasambandsins birtar atvinnurekendum

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands (SGS) afhenti Samtökum atvinnulífsins í dag kröfugerð sína vegna komandi kjarasamninga.

Kröfurnar mótuðust á fundum í verkalýðsfélögum og á vinnustöðum um land allt og með hliðsjón af niðurstöðu viðhorfskannana. Þær urðu þannig til í víðtæku, lýðræðislegu ferli í verkalýðshreyfingunni þar sem öllum félagsmönnum gafst kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hafa áhrif.

Meginkröfur Starfsgreinasambandsins eru þær að

  • miða krónutöluhækkanir á laun við að lægsti taxti verði 300 þúsund krónur á mánuði innan þriggja ára og sérstaklega verði horft til gjaldeyrisskapandi atvinnugreina við launahækkanir.
  • endurskoða launatöflur þannig að starfsreynsla og menntun séu metin til hærri launa.
  • desember- og orlofsuppbætur hækki.
  • vaktaálag verði endurskoðað og samræmt kjarasamningum á opinberum vinnumarkaði.
  • lágmarksbónus verði tryggður í fiskvinnslu.
  • skilgreind verði ný starfsheiti í launatöflu.

Gerðir hafa verið kjarasamningar við einstaka starfsstéttir undanfarnar vikur og mánuði, sem hljóta almennt að vísa launafólki veginn. Samhljómur er meðal aðildarfélaga SGS um að sú launastefna, sem hefur mótast í samfélaginu, endurspeglist í kjarasamningum SGS við Samtök atvinnulífsins.

Grundvallaratriði er að fólk lifi af dagvinnulaunum í stað þess að ganga sér til húðar í yfirvinnu, aukavinnu og akkorði til að framfleyta sér og sínum.

Langur vinnudagur og mikið álag dregur úr framleiðni og eykur samfélagslegan kostnað. Þá á launafólk að njóta þess í launum þegar það öðlast meiri færni í starfi með reynslu og menntun.


Tekið af síðu SGS

Samninganefnd Starfsgreinasamband Íslands (SGS) hefur samningsumboð 16 verkalýðsfélaga innan SGS.  Flóafélögin 3 fara sjálf með sitt umboð. SGS er stærsta landssambandið innan Alþýðusambands Íslands og hefur um 50.000 félagsmenn innan sinna vébanda í 19 félögum. SGS var stofnað 13. október 2000 við samruna Verkamannasambands Íslands, Þjónustusambands Íslands, vegna starfsfólks í veitinga- og gistihúsum, og Landssambands iðnverkafólks. 

Desemberuppbót árið 2014

Desemberuppbót árið 2014 miðað við fullt starf er kr:

73.600,- hjá almennu verkafólki sem greiðist í seinasta lagi 15. des. 2014

73.600,- hjá ríkisstarfsfólki sem greiðist í seinasta lagi 1. des. 2014

                       93.500,- hjá starfsfólki sveitafélaga sem greiðist í seinasta lagi 1. des. 2014

Ályktun félagsfundar VLFS Hellu

Verkalýðsfélag Suðurlands mótmælir harðlega  þeirri aðför að launafólki sem birtist í nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þar má helst telja.

Hækkun virðisaukaskatts á matvæli, skert réttindi atvinnulausra, lækkun framlags ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði Lífeyrissjóða á sama tíma og dælt er peningum inn til opinberu sjóðanna sem þýðir enn meiri ójöfnuð á milli kjara almennra og opinberra Lífeyrissjóða. Þetta leggur auknar  byrðar á lágtekjuhópa  og sýnir að  þeir eru ekki í forgangshópi ríkisstjórnarinnar.

Það er ótrúlegt skilningsleysi ríkjandi við gerð þessa fjárlagafrumvarps á kjörum almennings. Með þessu frumvarpi  er ríkisstjórnin að gefa  samstarfi við verkalýðshreyfinguna langt nef. Við þessar aðstæður verður verkalýðshreyfingin að svara þeim skilaboðum  skýrt og búa sig undir harðari deilur við gerð kjarasamninga en verið hafa í langan tíma.

VLFS áréttar að félög innan ASÍ hafa sýnt mikla ábyrgð við gerð samninga á undanförnum árum.  Það getur ekki verið réttlætanlegt að þau beri hana ein  í þjóðfélagi  sem vill byggja á jöfnuði  og sanngirni fyrir þegna sína.
Fleiri greinar...

<< Fyrsta < Fyrri 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 Næsta > Síðasta >>