Lög Verkalýðsfélags Suðurlands

 I. KAFLI
Heiti, starfssvæði og tilgangur
1. gr. Félagssvæði, heimili og varnarþing.
Félagið heitir Verkalýðsfélag Suðurlands. Starfssvæði þess er lögsagnarumdæmi Rangár-vallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Heimili félagsins og varnarþing er á Hellu. Félagið er aðili að Starfsgreinasambandi Íslands, sem er aðili að Alþýðusambandi Íslands og hlítir lögum þess, sem og ákvörðunum og samþykktum sem á þeim byggjast, sbr. 13. gr. laga ASÍ.

Félagið getur sótt um og gerst aðili að öðrum landssamböndum ef það er talið eiga við vegna starfsgreina. Stjórn félagsins er heimilt að veita viðtöku öðrum stéttarfélögum sem kunna að ganga til liðs við félagið enda sé það samþykkt á aðalfundi með 2/3 hlutum greiddra atkvæða.

2. gr. Tilgangur félagsins.
Tilgangur félagsins er:
Að sameina allt verkafólk sem starfar á svæði félagsins um hagsmunamál sín.
Að efla og styðja hag félagsmanna og menningu á þann hátt sem kostur er með því að ákveða vinnutíma, kaupgjald, vinnuskilmála, tryggja öryggi við vinnu, vinna að aukinni og bættri félagsmála- og heilbrigðislöggjöf og vinna að hagsmunamálum félagsmanna á allan þann hátt sem orðið getur til framdráttar menntun og menningu og hagsmunamálum verkafólks í starfi og tómstundum.
Að hafa nána samvinnu við annað verkafólk og hagsmunasamtök þess.
Að gæta hagsmuna verkafólks sem starfar á félagssvæðinu og á samningssviði þess.

3. gr. Deildir.
Heimilt er stjórn félagsins og trúnaðarráði, að skipta félaginu í deildir eftir starfsgreinum. Trúnaðarráð setur deildunum starfsreglur. Deildir hafa ekki sjálfstæðan fjárhag.

II. KAFLI
Aðild, úrsögn, brottvísun
4.gr. Félagsaðild.
Félagið er opið öllu verkafólki sem uppfyllir eftirtalin skilyrði:
a) Starfar í einhverri þeirri starfsgrein á félagssvæði félagsins sem kjarasamningar félagsins ná til.
b) Er fullra 16 ára að aldri.
c) Er hvorki skuldugt né stendur í óbættum sökum við félagið eða önnur verkalýðsfélög innan Alþýðusambands Íslands.
d) Hefur ekki atvinnurekstur á hendi eða koma fram á annan hátt gagnvart verkafólki sem fulltrúar eða umbjóðendur atvinnurekanda.

Komi í ljós, að félagsmaður hafi frá upphafi ekki átt rétt til inngöngu í félagið, eða hann hafi gefið villandi upplýsingar um atvinnu sína eða annað það sem gengur gegn hagsmunum félagsins, missir hann þegar í stað öll félagsréttindi og verður ekki tekinn í félagið að nýju fyrr en úr hefur verið bætt að fullu.

5. gr. Innganga í félagið.
Þeir sem uppfylla ákvæði 4. gr. og greiða til félagsins, skulu óska aðildar að félaginu með inntökubeiðni sem skilað skal á skrifstofu félagins eða á þar til gerðu rafrænu formi.

Hafi launamaður ekki sótt um félagsaðild, en greitt félagsgjald í samræmi við ákvörðun aðalfundar félagsins á hverjum tíma, skal félagið innan 6 mánaða eftir að félagsgjaldi var fyrst skilað senda viðkomandi tilkynningu um greiðslur og kanna hvort hann óskar inngöngu í félagið. Geri launamaður ekki athugasemdir við aðild innan 14 virkra daga frá dagsetningu tilkynningar telst hann orðinn félagsmaður. Kjósi launamaður að hafna félagsaðild telst hann aukafélagi og ekki til fullgildra félagsmanna og nýtur ekki atkvæðisréttar né kjörgengis sbr. 9. gr.

Hafi manni verið synjað um inngöngu í félagið, má ekki bera upp inntökubeiðni hans aftur fyrr en úr er bætt að fullu. Sé vafi um rétt til aðildar skal stjórn úrskurða um málið. Unnt er að skjóta þeirri ákvörðun til úrskurðar trúnaðarráðs og úrskurði þess til miðstjórnar ASÍ.

6. gr. Úrsögn
Úrsögn úr félaginu á sér stað sjálfkrafa er félagsmaður hættir að greiða félagsgjöld samkvæmt kjarasamningum félagsins. Að öðru leyti skal úrsögn vera skrifleg og afhendast skrifstofu félagsins og telst greiðandi þá aukafélagi skv. 9. gr.

Félagsmenn halda félagsréttindum meðan þeir gegna trúnaðarstörfum í verkalýðshreyfingunni. Enginn getur sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst eða ákvörðun um vinnustöðvun verið tekin eða meðan vinnudeila sem snertir kaupgjald eða vinnuskilmála viðkomandi félagsmanna stendur yfir og þar til vinnustöðvun hefur verið formlega verið aflýst.
Um úrsögn félagsins úr Alþýðusambandi Íslands eða samtökum sem aild eiga að því fer skv. 17. gr. laga ASÍ.

III. KAFLI
Réttindi og skyldur
7. gr. Réttindi félagsmanna
Réttindi félagsmanna eru:
a) Málfrelsi, tillögu- og atkvæðaréttur á félagsfundum og við allsherjaratkvæða-greiðslur.
b) Allir fullgildir félagar hafa kjörgengi til trúnaðarstarfa innan félagsins og þeirra félagasamtaka sem það er aðili að.
c) Réttur til styrkja og greiðslna úr sjóðum félagsins í samræmi við reglur þeirra.
d) Réttur til að vinna þau störf sem kjarasamningar félagsins taka til og eftir þeim lágmarkskjörum sem kjarasamningar ákveða hverju sinni.
e) Réttur til afnota af orlofshúsum félagsins og öðrum sameiginlegum eignum eftir því sem reglugerðir og reglur félagsins ákveða hverju sinni.
f) Réttur til að sækja fræðslustarf á vegum félagsins eða samtaka sem það er aðili að.
g) Réttur til aðstoðar félagsins vegna vanefnda atvinnurekanda á kjarasamningi og/eða ráðningarkjörum.
h) Réttur til annarrar þjónustu sem félagið veitir.

Um réttindi í sjóðum félagsins fer samkvæmt reglugerðum þeirra.  Félagsmenn sem hættir eru störfum og fá greiddan elli- eða örorkulífeyri, halda rétti sem aukafélagar þó þeir greiði ekki félagsgjöld, enda hafi þeir verið félagsmenn eigi skemur en 5 ár samfellt fyrir töku lífeyris og ekki gengið í önnur verkalýðsfélög. Þeir njóta réttinda úr sjóðum félagsins samkvæmt reglum þeirra.

Atvinnulaus félagsmaður sem greiðir félagsgjöld af atvinnuleysisbótum og félagsmenn sem greiða félagsgjöld í fæðingarorlofi halda fullum félagsréttindum. Þeir njóta réttinda úr sjóðum félagsins samkvæmt reglum þeirra.

Þeir einir hafa rétt til að taka þátt í atkvæðagreiðslum um aðalkjarasamninga eða boðun vinnustöðvunar til að knýja fram kjarasamninga, sem eru starfandi á vinnumarkaði.

8. gr. Skyldur félagsmanna
Skyldur félagsmanna eru:

a) Að hlíta lögum félagsins, fundarsköpum og fundarsamþykktum í hvívetna og halda í einu og öllu þá kjarasamninga sem félagið hefur gert við atvinnurekendur og aðra.
b) Að greiða félagsgjald samkvæmt kjarasamningum félagsins og ákvörðun stjórnar hverju sinni.
c) Að skýra formanni félagsins eða starfsmönnum frá því verði félagsmaður þess vís að brotið hafi verið gegn lögum og kjarasamningum félagsins.

9. gr. Aukafélagar
Þeir sem greiða félagsgjald til félagsins, en óska eftir að ganga ekki í félagið sbr. 5. gr. teljast aukafélagar. Um iðgjöld þeirra sem ekki kjósa að gerast fullgildir félagsmenn, gilda ákvæði laga, kjarasamninga og samþykkta félagsins á hverjum tíma. Aukafélagar hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins en hvorki atkvæðisrétt né kjörgengi til trúnaðarstarfa innan félagsins og þeirra félagssambanda sem það er aðili að. Að öðru leyti eru skyldur félagsins gagnvart aukafélögum hinar sömu og gagnvart fullgildum félögum.

Samninganefnd getur ákveðið við afgreiðslu einstakra mála í tengslum við kjarasamninga að aukafélagar hafi atkvæðisrétt.
Heimilt er að taka í félagið sem aukafélaga launafólk sem er félagar í öðru stéttarfélagi, en vinnur um stundarsakir á félagssvæðinu í einhverri þeirri starfsgrein sem félagið hefur samningsrétt fyrir.

10. gr. Viðurlög við brotum
Hafi félagsmaður brotið lög, reglugerðir eða fundarsamþykktir félagsins, bakað því tjón eða unnið því ógagn með öðrum hætti, er trúnaðarráði félagsins heimilt að veita honum áminningu eða víkja honum úr félaginu ef sakir eru miklar eða brot er ítrekað sem áminnt hefur verið fyrir áður. Telst hann þá framvegis aukafélagi skv. 9. gr. á meðan hann greiðir til félagsins.. Einnig getur trúnaðarráð svipt viðkomandi rétti til að sinna trúnaðarstörfum.

IV. KAFLI
Stjórn, trúnaðarráð, trúnaðarmenn, samninganefnd
11. gr. Skipan stjórnar
Stjórn félagsins skipa sjö aðalmenn: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og þrír meðstjórnendur. Varastjórn skipa fjórir félagsmenn. Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár í senn og skal kjósa formann, ritara, og tvo meðstjórnendur og tvo varastjórnarmenn annað árið, en varaformann, gjaldkera og einn meðstjórnanda og tvo varastjórnarmenn síðara árið.

12. gr. Hæfi stjórnarmanna
Stjórnarmenn mega ekki eiga meira en 5% hlut í fyrirtæki sem er í atvinnurekstri á starfssviði félagsins. Stjórnarmenn sem missa hæfi skv. framansögðu á kjörtímabili sínu víkja sjálfkrafa og tafarlaust úr stjórn og taka varamenn þeirra sæti í þeirra stað þar til hæfisskilyrðum er fullnægt að nýju. Frambjóðendur til stjórnar Verkalýðsfélags Suðurlands skulu og uppfylla ofangreind skilyrði við lok framboðsfrests. 

Missi stjórnarmaður kjörgengi sitt á tímabilinu skal hann tafarlaust víkja úr stjórnum Verkalýðsfélags Suðurlands. Um hæfi stjórna og nefndarmanna til meðferðar mála er nánar fjallað í starfsreglum félagsins.

13. gr. Hlutverk og ábyrgð stjórnar
Félagsstjórn hefur á hendi yfirstjórn allra mála félagsins milli félagsfunda. Stjórn ákveður og boðar til félagsfunda. Stjórn ber sameiginlega ábyrgð á fjárreiðum félagsins og eignum þess. Hún skal sjá um að fjármál séu jafnan í góðu horfi svo sem bókhald og meðferð fjármuna. Skylt er stjórn félagsins að stuðla að því að gögn og aðrar upplýsingar sem tengjast sögu félagsins séu sem best varðveittar. Stjórn ræður starfsmenn félagsins og ákveður laun þeirra, vinnuskilyrði og starfssvið með skriflegum ráðningarsamningi. Láti félagsmaður af trúnaðarstörfum er hann gegnir fyrir félagið er honum skylt að skila af sér öllum gögnum er trúnaðarstarf hans varða.
Í starfsreglum félagsins skal fjalla nánar um ábyrgð, skyldur, hæfi og verkefni stjórnar og annarra þeirra sem sinna trúnaðarstörfum fyrir félagið.

14. gr. Stjórnarfundir og fyrirsvar
Stjórnarfundir skulu haldnir þegar þurfa þykir en að lágmarki fjórum sinnum á ári. Formaður boðar til stjórnarfunda og trúnaðarráðsfunda og stjórnar þeim. Heimilt er honum þó að fela öðrum stjórn þeirra kjósi hann svo. Formanni er skylt að halda stjórnarfundi óski þrír stjórnarmenn þess. Afl atkvæða ræður úrslitum um afgreiðslu mála.

Formaður kemur fram fyrir hönd félagsins út á við, nema annað sé ákveðið. Hann undirritar bréf félagsins og gerðir fyrir þess hönd en getur falið slíkt starfsmönnum eða einstökum stjórnarmönnum. Formaður ber ábyrgð á daglegri starfsemi félagsins og fjárreiðum og gætir þess að fylgt sé lögum þess og reglum í öllum greinum. Hann samþykkir greiðslu reikninga sem félaginu berast.

Varaformaður skal í hvívetna aðstoða formann félagsins í starfi hans og taka við skyldum hans í forföllum formanns.

Varastjórnarmenn skulu boðaðir á stjórnarfundi og hafa málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt nema í forföllum aðalmanna. Fulltrúi Verkalýðsfélags Suðurlands í ASÍ UNG skal boðaður á stjórnarfundi félagsins að lágmarki á 6 mánaða fresti og hafa málfrelsi og tillögurétt.

15. gr. Ritari
Ritari ber ábyrgð á að fundargerðir séu að skráðar og varðveittar, sem og fundarsamþykktir, lagabreytingar og aðalreikningur félagsins .Fundargerðir félagsins má skrá og samþykkja með rafrænum hætti. Stjórn undirritar fundargerðir ásamt formanni. Heimilt er að hljóðrita fundi félagsins, en fundargerðir skulu engu að síður allar skráðar. Ritari ber ábyrgð á því ásamt formanni að skjöl félagsins og önnur gögn séu varðveitt með öruggum og skipulegum hætti.

16. gr. Gjaldkeri
Gjaldkeri félagsins hefur á hendi, ásamt formanni, eftirlit með fjárreiðum félagsins og bókhaldi eftir nánari samþykktum stjórnar. Félagskjörnir skoðunarmenn reikninga félagsins hverju sinni, skulu yfirfara samþykktir og reikninga félagsins ásamt fylgigögnum fyrir hvert reikningsár, sem er almanaksárið, og skila athugasemdum þar um ef ástæða er til. Þeir skulu undirrita reikninga félagsins og greinargerð sína með reikningunum.

17. gr. Trúnaðarmenn
Stjórn félagsins skal leitast við að tilnefna trúnaðarmenn á öllum vinnustöðum þar sem fimm félagsmenn eða fleiri vinna og samningar félagsins við atvinnurekendur taka til. Trúnaðarmenn skulu kosnir af þeim félagsmönnum sem starfa á viðkomandi vinnustöðum. Trúnaðarmenn skulu starfa samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 og samningsákvæðum Alþýðusambands Íslands við atvinnurekendur. Trúnaðarmenn skulu hafa eftirlit með því að lögum félagsins, samþykktum og samningum sé framfylgt í hvívetna á þeirra vinnustað. Trúnaðarmenn skulu vera tengiliðir milli félagsstjórnar og starfsmanna félagsins og þess verkafólks sem vinnur á viðkomandi vinnustað og eiga þeir rétt á aðstoð stjórnar og starfsmanna félagsins í störfum sínum þurfi þess með.

18. gr. Trúnaðarráð
Í félaginu skal starfa trúnaðarráð. Í trúnaðarráði eiga sæti: Stjórn félagsins, varamenn stjórnar og þeir félagsmenn sem kosnir hafa verið trúnaðarmenn á vinnustöðum. Formaður félagsins skal vera formaður trúnaðarráðs og ritari félagsins ritari þess.

Trúnaðarráð er stjórn félagsins til ráðgjafar og gerir tillögur að stefnu félagsins í mikilsverðum málum.

Formaður félagsins boðar til funda trúnaðarráðs þegar hann telur þess þörf eða þegar minnst ¼ hluti trúnaðarráðs óskar þess skriflega. Fundir skulu boðaðir skriflega með tilgreindri dagskrá með minnst tveggja daga fyrirvara. Formaður getur og í nafni félagsstjórnar kallað saman trúnaðarráð þegar félagsleg vandamál ber að höndum og ekki eru tök á að ná saman félagsfundi, og ræður úrslitum í slíkum málum einfaldur meirihluti fundar. Skulu ákvarðanir slíkra funda færast í fundargerð félagsstjórnar.

Um hlutverk og ábyrgð trúnaðarráðs er fjallað nánar í starfsreglum félagsins.

19. gr. Samninganefnd
Trúnaðaráð gegnir störfum samninganefndar félagsins. Hlutverk samninganefndar er að annast kjarasamningagerð fyrir hönd félagsins. Formaður félagsins skal vera formaður samninganefndar og varaformaður í forföllum hans. Samninganefnd ákveður þann fjölda nefndarmanna sem hún kveður til samningaviðræðna hverju sinni og er heimilt að skipta með sér verkum eftir samningssviðum. Heimilt er samninganefnd að kalla til fulltrúa af vinnustöðum til aðstoðar við samningagerð.

Samninganefnd félagsins skal kalla saman eigi síðar en þremur mánuðum áður en kjarasamningar eru lausir.
Samninganefnd hefur umboð til þess að setja fram kröfugerð félagsins við atvinnurekendur, gera áætlun um skipulag viðræðna og um endurnýjun eða gerð kjarasamnings. Þá hefur samninganefndin á hendi viðræður um kjarasamninga og slit á þeim. Hún getur óskað milligöngu ríkissáttasemjara um samningsumleitanir sé talin ástæða til. Loks hefur nefndin umboð til að undirrita gerðan kjarasamning.

Nánar er fjallað um samninganefnd í starfsreglum félagsins.

V. KAFLI
Kjörstjórn, kjörskrá og allsherjaratkvæðagreiðsla
20. gr. Kjörstjórn
Kjörstjórn skal skipuð þremur mönnum og tveimur til vara. Kjörstjórn skal tilnefnd af uppstillinganefnd og kosin á aðalfundi og er kjörtímabil hennar tvö ár.

Hlutverk kjörstjórnar er að hafa með hendi yfirstjórn atkvæðagreiðslna og kosninga samkvæmt lögum félagsins. Kjörstjórn hefur umsjón með útgáfu atkvæðaseðla er gilda við atkvæðagreiðslur hvort heldur er á kjörfundi, við póstatkvæðagreiðslur eða rafrænar atkvæðagreiðslur. Kjörstjórn sér um að atkvæðagreiðsla fari löglega fram og fullkomin leynd sé á því hvernig menn greiða atkvæði. Hún telur atkvæði að lokinni atkvæðagreiðslu og úrskurðar um vafaatkvæði. Kjörstjórn skal í öllu fara eftir reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslur.

Um hlutverk kjörstjórnar fer að öðru leyti samkvæmt starfsreglum félagsins.

21. gr. Kjörskrá
Stjórn félagsins, skal halda skrá yfir alla félagsmenn, sem atkvæðisbærir eru, í sérstaka kjörskrá. Kærufrestur vegna kjörskrár er til loka kjörfundar. Enginn getur gengið í félagið eftir að kjörfundur er hafinn. Inntökubeiðnir í félagið, sem berast eftir að kjörfundur er hafinn verða ekki afgreiddar fyrr en að honum loknum.

Umboðsmönnum þeirra, sem standa að framboðum við kosningu til stjórnar félagsins, skal heimill aðgangur að kjörskrá þegar framboðsfrestur hefur verið auglýstur.

22. gr. Allsherjaratkvæðagreiðsla
Allsherjaratkvæðagreiðslu skal viðhafa:

a) Um kosningu stjórnar, varastjórnar, stjórna sjóða og skoðunarmenn reikninga félagsins.
b) Um vinnustöðvun. Nú er vinnustöðvun einungis ætlað að taka til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilgreindum vinnustað og er þá heimilt að taka ákvörðun um vinnustöðvun með atkvæðagreiðslu þeirra, sem henni er ætlað að taka til.
c) Um miðlunartillögu af hendi ríkissáttasemjara eftir því sem við á.
d) Þegar trúnaðarráð félagsins eða lögmætur félagsfundur, sem sóttur er af minnst 75 félagsmönnum, samþykkir að hún sé viðhöfð. Slíkar atkvæðagreiðslur er þó aðeins hægt að viðhafa um mál sem lögð eru þannig fyrir, að hægt sé að svara með já eða nei eða kjósa þurfi á milli tveggja tillagna. Skulu þá útbúnir atkvæðaseðlar um málið svo að kjósandi þurfi að merkja við já eða nei, eða við aðra tillöguna ef tvær eru.

Við allsherjaratkvæðagreiðslu skal fara eftir reglugerð ASÍ þar að lútandi eftir því sem við á. Í stað allsherjaratkvæðagreiðslu á kjörfundi er stjórn félagsins heimilt að viðhafa almenna leynilega póstatkvæðagreiðslu eða rafræna atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna eða ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilgreindum vinnustað.

VI. KAFLI
Kosning stjórna, varastjórna, nefnda og skoðunarmanna ársreikninga
23. gr. Uppstillinganefnd
Í félaginu skal starfa þriggja manna uppstillingarnefnd kosin á aðalfundi annað hvert ár. Tveir skulu kosnir til vara og taka sæti í nefndinni í forföllum aðalmanna.

Uppstillingarnefnd gerir tillögur um hverjir skipi stjórn félagsins, varastjórn, kjörstjórn, stjórnir sjóða, skoðunarmenn ársreikninga og fulltrúa á ársfund Lífeyrissjóðs Rangæinga og Lífeyrissjóðsins Festu og leggur tillögurnar fyrir félagsstjórn. Uppstillingarnefnd skal við val á félagsmönnum til trúnaðarstarfa gæta jafnræðis á milli kynja eftir því sem kostur er.
Uppstillingarnefnd skal skila endanlegum tillögum til kjörstjórnar eigi síðar en 14 dögum fyrir auglýstan kjördag samkvæmt ákvörðun kjörstjórnar. Skal listinn merktur bókstafnum A. Tillaga skal liggja frammi á skrifstofu félagsins og auglýst félagsmönnum til sýnis átta dögum fyrir kjördag. Nefndin skal jafnframt um leið gefa félagsmönnum frest til að bjóða sig fram og/ eða bera fram aðrar tillögur.

Berist til kjörstjórnar fleiri listar, en uppstillinganefndar, skal þeim skilað eigi síðar en sjö dögum fyrir kjördag. Listana skal merkja bókstöfum í þeirri röð sem þeir berast. Berist aðeins einn listi, þarf kosning ekki að fara fram. Lista skulu fylgja skrifleg meðmæli minnst 75 félagsmanna. Skrifleg viðurkenning þeirra manna sem í kjöri eru, skal jafngilda meðmælum. Á engan lista má taka upp nöfn manna, sem gefið hafa skrifleg leyfi til þess að nafn þeirra sé sett á annan lista. Um störf uppstillinganefndar, fundi og starfshætti skal fjallað nánar í starfsreglum félagsins.

24. gr. Kosning
Kosning stjórnar, varastjórnar, sjóðsstjórna, skoðunarmanna ársreikninga og varamanna og fulltrúa á ársfund Lífeyrissjóðs Rangæinga og Lífeyrissjóðsins Festu skal vera skrifleg og leynileg og fara fram á kjörfundi. Kjörstjórn skal í öllu fara eftir reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslur, hún sér um að atkvæðagreiðsla fari löglega fram og fullkomin leynd sé á því hvernig félagsmenn greiða atkvæði Óheimilt er að viðhafa nokkurn kosningaáróður á kjörstað né við hann, né hafa þar uppi tillögur, áskoranir eða hvatningar um kosninguna, aðrar en leiðbeiningar samkvæmt lögum félagsins.

Um kosningu stjórna sjóða félagsins fer samkvæmt reglugerðum þeirra. Kosning fulltrúa á ársfund Lífeyrissjóðs Rangæinga og Lífeyrissjóðinn Festu fer fram á sama hátt og kosning stjórnar félagsins. Fulltrúar félagsins í öðrum nefndum og ráðum skulu kosnir af stjórn félagsins.

VII. KAFLI
Fundir
25. gr.Aðalfundur
Aðalfundur er æðsta vald í félagslegum og fjárhagslegum málefnum félagsins. Aðalfundur félagsins skal haldinn eigi síðar en í maí ár hvert. Hann skal boðaður með auglýstri dagskrá með minnst sjö daga fyrirvara og er lögmætur sé löglega til hans boðað.

Fastir liðir á dagskrá aðalfundar eru þessir:

a) Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
b) Endurskoðaðir og áritaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
c) Lýst kjöri stjórnar, varastjórnar, ssjóðsstjórna, skoðunarmanna ársreikninga og varamanna og fulltrúa á ársfund Lífeyrissjóðs Rangæinga og Lífeyrissjóðsins Festu.
d) Kjör uppstillinganefndar og kjörstjórnar.
e) Lagabreytingar, ef tillögur liggja fyrir.
f) Ákvörðun félagsgjalds, ef tillaga er um breytingu.
g) Önnur mál.

26. gr. Félagsfundir
Félagsfundir fara með æðsta vald í félagslegum og fjárhagslegum málefnum félagsins á milli aðalfunda. Félagið heldur fundi þegar stjórn félagsins eða trúnaðarráð ákveður, þó eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Félagsfund er skylt að halda ef minnst þrjátíu félagsmenn óska eftir því skriflega og tilgreina fundarefni. Félagsfundir eru lögmætir ef löglega er til þeirra boðað, með að minnsta kosti tveggja sólarhringa fyrirvara, og auglýstir á heimasíðu félagsins. Ef brýna nauðsyn ber til, svo sem vegna vinnudeilna og kjarasamninga, má boða fundi með skemmri fyrirvara en að framan greinir. Skal þá leggja áherslu á að boða þá svo vel sem tök eru á.

Á félagsfundi skal gera grein fyrir störfum stjórnar, trúnaðarráðs og fastanefnda félagsins á milli funda. Félagsfundir geta ekki gert ályktun um ágreiningsmál gegn trúnaðarráði nema minnst 200 fullgildir félagsmenn séu á fundi.

27. gr. Fundarsköp og atkvæðagreiðsla á félagsfundum
Fundum skal stjórna eftir fundarsköpum félagsins. Vafaatriði um fundarsköp úrskurðar fundarstjóri. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum atkvæða á félagsfundum, nema lög þessi ákveði annað. Óski fundarmaður eftir skriflegri atkvæðagreiðslu á félagsfundi er fundarstjóra skylt að verða við því.

VIII. KAFLI
Fjármál
28. gr. Sjóðir félagsins
Sjóðir félagsins eru eftirtaldir: Félagssjóður, Sjúkrasjóður, Orlofssjóður og Vinnudeilusjóður

Allir sjóðir félagsins, aðrir en félagssjóður, skulu starfa samkvæmt reglugerðum samþykktum af aðalfundi. Reglur hvers sjóðs skulu tilgreina hlutverk hans, skipan og ábyrgð sjóðstjórnar, hverjar tekjur hans eru, ávöxtun fjármuna hans og hvernig verja megi fé hans ásamt öðru sem starfsemi sjóðanna varðar.

Sjóðsstjórnir eru ábyrgar gagnvart stjórn félagsins. Ársreikningar sjóða skulu tilbúnir eigi síðar en í apríllok ár hvert og skal stjórn félagsins leggja þá fyrir aðalfund félagsins ár hvert.

Sjóði félagsins skal varðveita í banka eða með öðrum jafntryggum hætti. Tryggja skal ávöxtun þeirra á bankareikningi, með kaupum verðbréfa, eða með öðrum þeim hætti sem tryggir hámarksávöxtun þeirra. Stjórn félagsins annast vörslu og ávöxtun sjóða félagsins og ber ábyrgð á þeim. Ávallt skal þess gætt að fé sjóða sé haldið aðgreindu og að ráðstöfun á fé sjóðs brjóti ekki í bága við tilgang hans og verkefni.

29. gr. Félagsgjöld
Félagsgjöld eru ákveðin á aðalfundi og skulu innheimt sem ákveðið hlutfall af launum. Upphæð lágmarks félagsgjalds skal ákveða á aðalfundi, enda liggi fyrir tillaga um það. Tillaga um lækkun félagsgjalds nær því aðeins samþykki að ¾ atkvæða séu því meðmæltir.

30. gr. Kostnaður við rekstur
Af tekjum félagsins skal greiða útgjöld við starfssemi þess, svo sem húsaleigu, rekstur skrifstofu, laun starfsmanna og annan kostnað sem verður af löglegum samþykktum stjórnar, trúnaðarráðs og félagsfunda. Við meiri háttar ráðstafanir á eigum félagsins þarf samþykki félagsfundar.

Komi fram tillögur á félagsfundi um fjárframlög úr sjóðum félagsins, geta þær því aðeins komið til atkvæða á þeim fundi ef meirihluti stjórnar er þeim meðmæltur. Stjórnin getur frestað slíkri tillögu til frekari athugunar til næsta félagsfundar.

31. gr. Ársreikningar
Semja skal ársreikning fyrir félagið í heild og sjóði þess samkvæmt lögum, reglum og góðri reikningsskilavenju. Nánar er fjallað um ársreikning í starfsreglum félagsins. Um fjármál félagsins fer skv. lögum og viðmiðunarreglum ASÍ.

32. gr. Skoðunarmenn reikninga og endurskoðandi
Skylt er að láta löggiltan endurskoðanda endurskoða reikninga og fjárreiður félagsins. Reikningar skulu lagðir fyrir aðalfund áritaðir af endurskoðanda og félagskjörnum skoðunarmönnum reikninga félagsins. Tveir félagslegir skoðunarmenn skulu yfirfara reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár og gera athugasemdir sínar við þá. Skoðunarmenn eru kosnir á sama hátt og stjórn félagsins og kjöri þeirra lýst á aðalfundi. Hlutverk þeirra er m.a. að hafa eftirlit með því að fjármunum félagsins sé varið til þeirra verkefna sem félagsfundur og/eða stjórn hafa ákveðið. Reikningar skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins, félagsmönnum til skoðunar, sjö dögum fyrir aðalfund.

IX. KAFLI
Lagabreytingar og slit félagsins
33. gr.Lagabreytingar
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi, enda sé þess getið í fundarboði að tillaga um lagabreytingar liggi fyrir. Ennfremur skulu tillögur um lagabreytingar hafa verið ræddar áður á félagsfundi samkvæmt dagskrá, minnst viku fyrir aðalfund. Tillögum um lagabreytingar, sem einstakir félagsmenn vilja koma á framfæri, skal skila til félagsstjórnar eigi síðar en fyrir lok febrúar ár hvert.
Til þess að lagabreyting nái fram að ganga, verður hún að vera samþykkt með 2/3 hlutum atkvæða minnst, og kemur þá fyrst til framkvæmda er miðstjórn ASÍ hefur samþykkt hana.

34. gr. Slit félagsins
Félaginu verður ekki slitið nema ¾ allra félagsmanna samþykki það að undangenginni allsherjaratkvæðagreiðslu. Verði samþykkt að leggja félagið niður, skal Alþýðusamband Íslands varðveita eignir þess þar til annað verkalýðsfélag er stofnað með sama tilgangi á félagssvæðinu. Fær það félag þá umráð eignanna, að áskildu samþykki miðstjórnar ASÍ.

Um sameiningu félaga skal fjallað á sama hátt og um lagabreytingar, sbr. 33. gr. laga þessara.

Lög þessi voru lögð fram og samþykkt á aðalfundi félagsins þann 19. maí 2022.