Fullgildur félagi

Til að gerst fullgildur félagi í Verkalýðsfélagi Suðurlands, þarf að fylla út inngöngubeiðni

Sem fullgildur félagsmaður hefur þú t.d:

Forgang í úthlutun orlofshúsa/íbúða.
Hefur atkvæðisrétt og fleira.

Hvaða meginreglur gilda varðandi stéttarfélagsaðild:

„Þarf ég að greiða í stéttarfélag?“
Samkvæmt lögum frá 1980 nr. 55 er atvinnurekendum gert skylt að halda eftir af launum starfsmanna iðgjaldi til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina. Samkvæmt 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi og ákvæðum l. 55/1980 er launafólki frjálst að standa utan stéttarfélaga þótt því beri aftur á móti skylda til þess að taka þátt í fjármögnun kjarnahlutverks stéttarfélaganna sem er að gera lágmarks kjarasamninga sem ná til allra óháð formlegri félagsaðild.

„Ef ég skipti um félag missi ég þá öll réttindi?“
Ef iðgjald er greitt til félaga innan ASÍ flytur viðkomandi réttindin á milli stéttarfélaga.

„Er ekki sama í hvaða stéttarfélagi ég greiði?“
Stéttarfélögin hafa gert samkomulag um félagssvæðin. Í lögum hvers félags eru félagssvæðin tilgreind. Félagssvæði Verkalýðsfélags Suðurlands nær frá Þjórsá í vestri að Lómagnúp í austri. Félagssvæði Bárunnar, stéttarfélags er Árnessýsla nema Ölfus og Hveragerði. Félagssvæði VR (áður Verslunarmannafélag Suðurlands) er Árnessýsla, Rangárvallasýsla og Vestur Skaftafellssýsla. Þeir sem starfa á þessum ákveðnu félagssvæðum greiða til þess félags sem samið hefur um störf þeirra og sem félagssvæðið tilheyrir.

„Get ég valið um stéttarfélag á sama félagssvæði?“
Ef tvö félög eða fleiri eru aðilar að sama kjarasamningi í sömu starfsgrein á sama félagssvæði er hægt að velja félag.

„Getur atvinnurekandinn ákveðið í hvaða félag ég greiði?“
Atvinnurekanda ber að fara eftir þeim reglum sem gilda á vinnumarkaði og getur ekki ákveðið fyrir hönd starfsmanna fyrirtækisins til hvaða félags þeir eiga að greiða.

„Eru sömu laun í öllum stéttarfélögum?“
Í öllum kjarasamningum er kveðið á um lágmarkslaun sem þýðir að ekki megi greiða lægra en lágmarkstaxta. Engin kjarasamningur eða stéttarfélag hamlar því að ekki megi greiða meira. Það er öllum frjálst að greiða góð laun óháð félagsaðild. Öll félög hvetja til bættra kjara. Lágmarkstaxti er ekkert lögmál.

Ertu verktaki eða starfsmaður?

Það er mikill munur á því að vera launamaður eða verktaki og mikilvægt að fólk átti sig á í hverju munurinn felst. Sem launamaður ertu með ráðningasamning og safnar réttindum á vinnumarkaði, atvinnurekandinn sér um að greiða af þér skatta og þess háttar og þú ert varinn af lögum sem launamaður. Ef þú ert verktaki ertu í raun að selja þjónustu og þú átt í viðskiptum án þess að njóta réttinda sem launamaður eða ávinna þér slíkt. Því miður er þessu stundum ruglað saman og launamönnum boðið uppá að vera verktakar.

Þú ert starfsmaður ef þú semur um að mæta á ákveðnum tíma á ákveðinn stað og ljúka vinnu á ákveðnum tíma. Þú ert starfsmaður ef þú vinnur undir verkstjórn annarra og ert í fastri vinnu.

Þú ert verktaki ef þú gerir samning um einstaka verk sem þú ræður hver vinnur og hvernig. Samið er um greiðslu fyrir verkefnið en þú átt atvinnutækin sjálf/ur og getur ráðið aðra til að sinna verkinu. Þú ert fjárhagslega ábyrg/ur fyrir verkefninu sjálf/ur.

Ef þú ert verktaki:

Ertu ekki varinn af kjarasamningum þegar kemur að til dæmis lágmarkslaunum.
Hefur ekki uppsagnarfrest.
Safnar þú ekki orlofi og getur því ekki tekið frí á launum.
Færðu ekki greitt í veikindum.
Safnarðu ekki sjálfkrafa í lífeyrissjóð.
Ert ekki slysatryggð/ur gegnum atvinnurekendur.
Þarft þú sjálf/ur að skila tryggingagjaldi, mótframlagi í lífeyrissjóð, slysatryggja þig o.s.frv.

Passaðu uppá réttindi þín! Gerviverktaka er ólögleg og skerðir réttindi almenns launafólks!

ATH. Prenta þarf út beiðnina og senda til okkar undirskrifaða á skrifstofu félagsins merkt: Verkalýðsfélag Suðurlands, Suðurlandsvegi 3, 850 Hella

Inngöngubeiðni