Ofbeldi þrífst þegar ekki ríkir valdajafnvægi og einn einstaklingur hefur möguleika á að drottna yfir öðrum í krafti kyns, aldurs, stöðu eða annars. Á vinnumarkaði er þetta valdajafnvægi alltaf viðkvæmt. Launafólk á allt sitt undir því að hafa vinnu og fá greitt fyrir vinnuframlag sitt. Stéttafélög voru einmitt stofnuð til höfuðs valdi atvinnurekenda yfir launafólki og það má segja að starfsemin gangi út á það enn í dag að jafna völdin. Þau sem hafa stéttarfélag að baki sér standa ekki ein/n gegn valdinu og við getum ímyndað okkur samningsstöðuna ef hver og einn ætti að semja um kaup og kjör í stað þess að stéttarfélög geri kjarasamninga.

Kúgun á vinnumarkaði birtist með ýmsum hætti og ég minnist þess þegar konur í hreyfingunni komu saman í miðri #metoo bylgju. Margar höfðu upplifað áreitni á vinnustað en það sem mörgum þótti sárast var þegar gengið var fram hjá þeim við mikilvægar ákvarðanir er vörðuðu stöðu viðkomandi, laun o.fl. Niðurlægingin sem í því fólst var hvað sárust.

Þær konur sem búa við mestu kúgunina í launum eru oft þær sem sæta mestu ofbeldi á vinnustað. Frásagnir kvenna af erlendum uppruna eru til vitnis um það og einnig sú staðreynd að nafnlausar treystu konur sér fyrst til að segja frá. Með því að ljá konum rödd sem ekki treystu sér til að koma fram undir nafni þá var hægt að opinbera þeirra bitru reynslu á vinnumarkaði. Það segir töluvert um í hvaða stöðu viðkvæmir hópar á vinnumarkaði eru og hver hættan er þegar fólk vogar sér að standa á rétti sínum.

Að fá þau skilaboð í launaumslaginu að þú sért lítils virði er líka skilaboð um að það sé í lagi að gera lítið úr þér. Þú ert undirtylla. Í þeirri stöðu er fólk síður líklegt til að kæra eða segja frá, ég tala ekki um ef það hefur ekki vald á tungumáli vinnustaðarins. Þeim sem finnst í lagi að undiroka aðra í launum eru líklegri til að sýna virðingaleysi á öðrum sviðum. Karlkyns yfirmaður sem finnst að konur eiga að fá minna í launaumslagið en karlar er ekki líklegur til að bera virðingu fyrir konum og þeirra framlagi á vinnustaðnum og í samfélaginu.

Misrétti í launum og ofbeldi á vinnustað er þannig nátengt. Barátta kvenna fyrir jafnrétti í launum er barátta þeirra fyrir virðingu og frelsi frá hvers konar ofbeldi. Stéttarfélög hafa þá skýru ábyrgð að berjast fyrir bættum kjörum og góðum starfsskilyrðum en það er ekki fyrr en á síðari árum að frelsi frá áreitni og ofbeldi er orðið vinnuverndarmál. Ný samþykkt Alþjóða vinnumálastofnunarinnar gegn ofbeldi og áreitni í heimi vinnunnar boðar vatnaskil í baráttunni og nú bíðum við þess að samþykktin verði fullgild hér á landi.

Drífa Snædal,
forseti Alþýðusambands Íslands